Nú má segja að fyrstu tveir hlutar Langleiðarinnar séu að baki og ákveðin kaflaskil séu í ferðalaginu. Reykjanesskaginn var þveraður í fyrra sumar, suðurlandsundirlendið í ár og nú er komið að því að byrja á sunnanverðu miðhálendinu og þvera Sprengisand upp í Nýjadal. Tæpir 270km eru að baki í 9 ferðum af þeim 850km sem ég áætla gróflega eða eitthvað rétt um þriðjungur leiðarinnar. Næstu leggir munu krefjast meiri aksturs og fjórhjóladrifinna bíla með trússbílstjórum. Eins breytist tímaramminn þar sem ekki er hægt að skipuleggja ferðir nema Sprengisandur sé fær sem er yfirleitt milli júlí og september eftir aðstæðum. Möguleikarnir í leiðarvali eru hins vegar margir og ólíkir með kosti og galla. Næsti fyrirsjáanlegi hluti Langleiðarinnar er Sprengisandsleið að Nýjadal og er áætluð vegalengd í þessum hluta um 110km +/- 10 eftir leiðarvali.
Langleiðin yfir sprengisand: Leiðarval
Sprengisandsleið þekkja margir sem akveginn frá Þjórsárdal upp í Nýjadal. Hann er grófur malarvegur vel fær fjórhjóladrifunum bílum, fjallahjólum og öðrum fararskjótum sem láta læki og ár ekki stoppa sig. Það eru hins vegar mun fleiri slóðar og vegir í boði til þess að þvera hálendið. Mæðgurnar sem fóru hér um í fyrra kusu að fara mun austar en Sprengisandsleið, fóru upp á Búðarháls og fylgdu síðan Þjórsá að stórum hluta upp eftir landinu áður en þær komu aftur inn á Sprengisandsleið einni dagleið fyrir Nýjadal. Eins sér maður að vinsæl gönguleið er að ganga eftir börmum Köldukvíslar milli Hrauneyjafossa og Þórisvatn. Þegar vegakort eru skoðuð ítarlega sést að mun fleiri gamlir slóðar og vegir liggja þvers og kruss um þetta svæði, ýmist slóðar tengdir virkjunarframkvæmdum eða gamlir hálf- eða al-aflagðir jeppavegir. Grunn hugmyndafræði leiðarinnar hefur alltaf verið að reyna að forðast alfaraleiðir, þjóðvegi, umferð og að fara nýjar ókannaðar leiðir sem eru þó þokkalega færar á skokki. Eftir að hafa skoðað ýmsa kosti, heyrt ýmsar hugmyndir og tillögur er ég kominn með grunn hugmynd að leiðarvali sem tekur mið af öllum ofangreindum kostum. Það er engin ein rétt leið, vegalengd eða uppskipting bara ákvörðun um hvernig farið er milli A og B. Hinn hausverkurinn er skipulag.
Trúss pælingar
Héðan í frá þarf að fá utanaðkomandi aðstoð við fólks- og bílaflutninga. Tíminn sem fer í að keyra frá höfuðborgarsvæðinu er nú farinn að telja í klukkutímum og hver viðbótarklukkutími sem fer í trúss aðra leiðina lengir daginn umtalsvert. Það er því ekki lengur framkvæmanlegt að hlauparar sjái sjálfir um að koma bílum í upphaf og endi. Mér dettur í hug þrjár leiðir til þess að takast á við þetta mál fyrir næsta kafla.
Fá trússara með sem skilar hlaupurum á upphafsstað og pikkar hlaupara upp í endamarki x klukkustundum síðar.
Fá tvo trússara með sem skila hlaupurum á upphafsstað, keyra svo á auka bílum í endamark, skilja bíl þar eftir og halda heim.
Búa til grunnbúðir þar sem farnar eru tvær eða fleiri dagleiðir í röð þar sem trússari/trússarar notast við aðferð 1 eða 2 hér að ofan.
Lengd og ferðir
Í upphafi var miðað við að hver leggur væri um 20-25km að staðaldri. Eftir því sem fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu jókst og hlaupaformið batnaði hafa leggir haldist í kringum 30km. Það hefur bæði fækkað leggjum og rímað ágætlega við ákjósanlega endastaði. Nú þegar fjarlægt eykst enn frekar eru nokkrar sviðsmyndir framundan um hvernig kljást eigi við næstu >100 kílómetra.
Sviðsmynd A: Halda áfram að brjóta leiðina niður í ~30km leggi og fara þá á dagleiðum frá Reykjavík
Sviðsmynd B: Brjóta leiðina niður í lengri leggi ~50km dagleið sem farin er á léttara skokki og labbi yfir fleiri klukkutíma en áfram í dagsferðum frá Reykjavík.
Sviðsmynd C: Fara í „back-to-back“ hluta þar sem settar eru upp grunnbúðir og farnar eru styttri ~20km dagleiðir tvo eða fleiri daga í röð.
Hver og ein sviðsmynd hefur kosti og ókosti. Það er þó ljóst að eftir Nýjadal munu sviðsmyndir C og A verða ákjósanlegri og nauðsynlegar því lengra sem haldið er norður fyrir. Mér hugnast best að reyna að halda í sviðsmynd A aðeins lengur þótt hver leggur verði tímafrekur í framkvæmd:
Tillaga að útfærslu: Gamli sprengisandur / miðjuleiðin / háleiðin
Að ofangreindum pælingum, rannsóknum, kortayfirlagningu og spökleringum er grunn hugmyndin er að fara milliveginn, gömlu sprengisandleiðina upp á og eftir Búðarhálsi, upp fyrir megin vötn og árfarvegi, eiga viðkomu í Versölum og koma síðan niður á núverandi Sprengisandsleið síðasta hlutann í Nýjadal. Þessi leið liggur frekar hátt miðað við landslag en liggur eftir lítið notuðum malar- og vegaslóðum sem eru að mestu leyti sýnilegir og þokkalega auðfarnir. Sprengisandur verður alltaf einsleitur með löngum beinum köflum og fáum túristastöðum. Aðal atriðið er að komast frá A til B. Hér eru fyrstu drög að leggjum sem miða við sviðsmynd A, þ.e. að brjóta niður þessa leið í um 30km hluta.
Langleiðin yfir Sprengisand 1: Sprengisandsleið - Kvíslarmót 31,33km (19.sept 2021)
Næsti hluti leiðarinnar, fetar sig upp á Búðarháls og fylgir honum eftir gömlum malarvegum. Vonandi eru þær ökufærir en endir á þennan legg er settur eftir 31.33km miðja vegu milli starts og skálans Versala. Farið er af Búðarhálsi og upp og yfir Innriháls. Örlítið lengra eru krossgötur malarvega sem eru kölluð Kvíslamót skv. örnefnasjá og alveg jafn góður staður og hver annar til þess að stoppa.
Langleiðin yfir Sprengisand 2: Kvíslarmót - Versalir 26,72km (2.okt 2021)
Haldið er áfram þar sem frá var horfið áleiðis eftir slóðum og hægri hækkun haldið áfram. Farið er undir Kjalöldur, meðfram og upp fyrir Kjalvötn uns tekin er nokkuð skörp beygja niður á fjallveginn um Sprengisand síðustu kílómetrana að skálanum Versölum við Stóruverskvísl.
Langleiðin yfir Sprengisand 3: Versalir - Kistualda 33km (sumar/haust 2022)
Frá Versölum er haldið norður á við ofan við Stóraverslón og þaðan norður og upp fyrir Kvíslarvatn. Þegar komið er norður fyrir þetta gríðar stóra vatn er aftur haldið að þjóveginum og komið að honum við Kistuöldu þar sem leggurinn endar.
Langleiðin yfir Sprengisand 4: Kistualda - Nýidalur 24,3km (sumar/haust 2022)
Síðasti hluti þessa áfanga liggur frá Kistuöldu alfarið eftir þjóðveginum. Hér verður farið eftir þjóðveginum eða til hliðar við hann eftir getu eins og hann liggur uns komið er niður í Nýjadal.
Það getur margt gerst og skipulagið breyst en það verður að koma í ljós síðar.
Comentários