top of page
Search
Writer's pictureÓskar Þór Þráinsson

Upplandið yfirgefið: Frá Geysi til Helgaskála


Helgina 8.ágúst fórum við Tomas með skömmum fyrirvara áttundu ferð Langleiðarinnar frá Geysi í Helgaskála. Spáin var góð og leiðin nokkuð skýr. Við keyrðum á Geysi en vorum búnir að fá góðan vin okkar Marco til þess að sækja okkur að leiðarlokum og keyra okkur til baka.

Þegar við komum á Geysi um hádegi var algjört útlandaveður. >20°, svo gott sem logn og algjör hitamolla. Við bættum því í vatnsbirgðirnar og lögðum af stað. Við reyndum að venju að halda okkur utan þjóðvega og fórum því golfvelli, stíga og akra (og yfir eitt grindverk) uns við náðum "Skeiða- og hrunamannavegi" sem liggur niður að Hvítá þar sem eina góða brúarvaðið er að finna. Hann er verið að endurgera og líklega malbika en var ágætis þríbreiður malarslóði á þessum tímapunkti. Ógnarhiti var á leiðinni og er óhætt að segja að svitinn lak bókstaflega af okkur. Við brúna yfir Ölfusá stoppuðum við og skoðuðum Brúarhlöð, magnaðar gljúfurmyndanir sem gaman er að skoða.

Eftir það lá leið okkar upp í land upp í Tungufellsdal þar sem við ákváðum að klæða okkur úr að ofan úr svitafullum bolum og böðlast áfram á bumbunni. Það hjálpaði verulega til að fást við hitann og er það líklega í fyrsta skipti sem ég hleyp lengri vegalengdir ber og glaður. Leiðin liggur upp grasi- og birkigróinn Tungufellsdal, fram hjá afleggjara inn að Gullfossi austan megin uns komið er að gatnamótum við línuveg Sultartangalínu 3. Við fylgdum að mestu leiti ágætis malarvegum með einstaka tilbreytingu eftir stuttum reiðleiðum til hliðar. Merkilega lítið er um vatn fyrr en komið er langt eftir línuveginum. Þá koma litlir lækir og Leirá sem nær upp í kálfa en er ekki straumhörð. Eftir Leirá voru aðeins 3km eftir í Helgaskála sem stendur við Stóru-Laxá og er vel haldið við þar sem Marco og vinkona hans biðu eftir okkur sofandi úti í móa í hitamollunni innan um ferskvatnslindir og fuglasöng. Vegalengdin var um 34.89 km á 5 tímum. Heilt yfir ekki mest spennandi kafli langleiðarinnar eftir þjóðvegum, malarslóðum og línuvegum en ótrúlega magnaður ferðadagur í sumar, sól og bongó BONGÓ sem maður upplifir sjaldan. Ég verð reyndar næstu vikur að jafna mig á svaðalegum nuddsárum á bakinu eftir bakpoka-berbakið en það er algjörlega ferðarinnar virði.



12 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page