Sunnudaginn 27.sept 2020 fór ég ásamt fjórum öðrum frískum hlaupurum næsta legg Langleiðarinnar. Að þessu sinni var lagt af stað frá Hellisheiðarvirkjun upp Sleggjubeinasrkarð og inn í Innstadal sem er grasigróin víður dalur í miðjum Henglinum.
Þessi dalur var alveg magnaður, opinn og víður umkringdur háum fjöllum og snarbröttum björgum með fáar leiðir út eins og dalur Ísfólksins. Við ræddum það hve maður ætti að fara oftar í Hengilinn að hlaupa í þessu stórbrotna umhverfi. Hér er fullt af gönguleiðum og stígum sem maður ætti að fara oftar. Dalurinn var kominn í haustlitina og var bæði gulur af sinu en líka ennþá grænn þar sem heitar sprænur og blettir héldu hita á gróðrinum.
Í Innstadal hlykkjast stígurinn fram og til baka en þar þurftum við að þvera sama lækinn um sex sinnum. Það var heldur blautt og mjúkt undirlag þannig að lítið var hægt að halda fótum þurrum. Við vorum hvort eð er orðin blaut í fæturna þannig að við óðum bara yfir lækina eins og þeir birtust.
Austur af Innstadal við mættum smalamönnum í leit að fé en þeir létu sér duga að smala okkur í áttina að Reykjadalnum. Við rákumst á lítið gil með skemmtilegum fossi milli Hengills og Reykjadals og virtum fyrir okkur útsýnið niður að Nesjavallavirkjun. Þegar við nálguðumst Reykjadal var veður orðið leiðinlegra, mikil bleyta í stígum og umhverfi og leirinn í stígnum sleipur og drullugur. Í Reykjadalnum voru engir útlendingar en við mættum samt tveimur stórum gönguhópum.
Þar sem farið var að rigna og ekki mjög spennandi veður lét ég mér duga stutt fótabað í varla ilvolgum læknum í stað þess að baða mig í sól og blíðu samkvæmt upphaflegu plani. VIð héldum af stað upp úr Reykjadalnum framhjá háhitabletti og upp í skarðið milli dalana.
Næst lá leiðin um Grænsdal sem er gríðarfallegur, fullur af grænni náttúru, jarðhita en líka seinförnum krákustígum og drullupittum. Í miðjum dalnum þegar ég fór fyrir hópnum hoppaði ég yfir smá poll og ætlaði að lenda jafnfætis á moldarbarði. Það moldarbarð reyndist vera leirpittur og sökk ég upp á miðja kálfa. Ég náði að komast upp þótt leirinn gerði góða tilraun til að halda skónum og við héldum áfram, enda skolaði bleytan fljótt leirinn af skónum. Þarna var veður enn að versna, farið að hellirigna og útsýni að minnka. Umtalsverð hækkun var upp úr Grænsdal, upp frekar bratt en flott gil upp á Álút sem var hæsti punktur ferðarinnar.
Þegar þar var komið við sögu var útsýnið ekkert og fyrsti rigningar klukkutíminn að baki. Það er líklega brjálæðislega gott útsýni þarna á góðum degi bæði til Hveragerðis og til Þingvalla en ég verð að fá að njóta þess síðar í lífinu. Góðu fréttirnar voru þó að eftir þetta var leiðin mestmegnis niður á móti. Næstu kílómetrar voru nokkuð tíðindalausir nema að þær voru helst til margar litlu smábrekkurnar upp þótt leiðin ætti að heita eingöngu niður á móti. Hugsanlega hafði rigningin og kuldinn einhver áhrif á þá upplifun.
Smám saman létti á skýjahulunni þótt rigningin væri enn þung og þegar við komum niður í Grafningsrétt mátti sjá til Úlfljótsvatns, Þingvallavatns og austur á Laugarvatn. Á þessum tímapunkti var ekki þurr þráður á nokkrum manni og stígarnir á köflum líkari lækjum en gönguleiðum.
Við komumst þó í dýrðar fallegum haustlitum niður í Fossá niður á veginn sem liggur að Úlfljótsvatni að leiðarlokum. Við komum býsna lúpuleg í mark eftir 28.8km blaut inn að beini. Sjaldan hefur það verið jafn gott að komast inn í skjól, fara heita sturtu og fá heitt kakó og hraunbita. Við kunnum Skátunum bestu þakkir fyrir að lána okkur aðstöðuna.
Í heildina litið var þetta alveg feiknar skemmtileg ferð þrátt fyrir að hægt væri farið yfir á köflum og mikil rigning væri nærri hálfa ferðina. Hengilssvæðið er alveg stórfenglegt í alla staði og var það samdóma álit hópsins að þangað þyrfti maður að fara oftar að hlaupa. Reykjadalurinn er alltaf frábær og Grænsdalur áhugaverður. Þegar við keyrum niður Kambana á næstunni munum við benda inn að Grænsdal og benda og segja með glampa í augunum: "Þarna var ég !"
Nú er veður orðið verra, farið að kólna í veðri og útlit fyrir að covidið sé að versna þannig að þessi leggur verður sá síðasti þetta sumarið. Nú tekur við vetur af leiðarplönum, spáum og spöklerum þangað til næsti leggur verður farinn í vor. Þá stefni ég á að fara frá Úlfljótsvatni að Laugarvatnshelli og helst leggja Gullfoss að baki áður en kemur að næsta hausti. Það verður að koma í ljós hvernig aðstæður verða en þetta sumar var alveg geggjað!
Comments