top of page
Search
Writer's pictureÓskar Þór Þráinsson

Stíga- og umhverfisskoðun á Reykjanesi

Updated: Oct 13, 2020


Mér fannst mikilvægt að skoða vel aðstæður og leiðarval fyrir fyrsta áfanga í stað þess að hlaupa af stað út í óvissuna. Bæði langaði mig að hafa upphafsstaðinn sem skemmtilegastan og ég var óviss um hversu vel skokkfært leiðarval þeirra er sem á undan farið. Ég settist því niður og skipulagði rúmlega 20km hring um Reykjarnestána og nágrenni. Hugmyndin var að út frá því myndi fyrsti leggurinn vera klár til kynningar.

Ég fékk Tomma, vinnu- og fjallaskokkfélaga minn til þess að koma með mér, enda er hann alltaf til í allskonar ævintýri.

Við lögðum af stað frá Gunnuhver eftir stikaðri gönguleið út að Reykjanestá í bongó blíðu á laugardegi 9.maí 2020.

Fyrsta stopp var á Skálafelli, gömlum gíg sem stendur hátt yfir Gunnuhver. Þar var útsýni gott yfir dagleiðina. Þar fundum við líka helli með miklum 8metra kaðli sem gaman væri að skoða síðar.

Við skokkuðum síðan niður hraunbreiðurnar út að Reykjanestá þar sem viti nefndur "Reykjanes, aukaviti" stendur. Við vorum sammála um að hér ætti leiðin formlega að byrja.

Vitin stendur á ysta hluta Reykjanestáar og er fallegur á að líta. Kjörinn í uppstillta mynd í upphafi Langleiðarinnar.

Leið okkar lá upp með Reykjanestánni eftir Valbjargargjá og í smá aukakrók upp að Reykjanesvita áður en við fórum niður að Valahnúkamöl þar sem áætlunin er að leggja bílum fyrir upphaf hlaupsins.

Næst þræddum við ströndina og fylgdum göngutrakki frá Langleiðaráfanga 2014. Sú leið fer nokkuð utan stíga og vega út á tanga sem óþarfi er að hafa með í skokkferðinni. Við fórum skemmtilega stikaða leið um hraunið sem auðvelt er að fylgja niður að affalli Reykjanesvirkjunar sem hefur verið í fréttum undanfarið. Það er einstaklega fallegur staður sem vert verður að stoppa á.

Næstu töpuðum við aðeins leiðinni áður en við fundum óstikaða en mjög skemmtilega varðaða leið fram hjá Mölvíkurvörðu. Þeirri leið verður haldið frekar en að fara veginn.

Þegar lengra var fylgdum við áfram göngutrakkinu frá 2014 en töpuðum vörðuðu leiðinni og lentum í hálfgerðum ógöngum, úfnu og illfæru hrauni nema á vægum gönguhraða. Lokaleiðin mun því verða flutt á leiðinn á þessum tímapunkti enda ekkert stómerkilegt að sjá þarna nema víkur og hraun. Við enduðum svo leiðarskoðunina á að sjá hvar stikuð gönguleið fer yfir Reykjaveginn og hverfur í hraunið í áleiðis að Eldvörpum.

Við héldum áfram skoðunarferð okkar með því að hlaupa um Rauðhól, kíkja upp á Stampana í Stampahrauni og þvera Sýrfellshraun þar sem við gengum upp á Sýrufell til að horfa á hlaupaleiðina til austurs. Hringurinn endaði síðan aftur við Gunnuhver og taldist rétt rúmir 22km. Hrikalega skemmtileg leið og má hiklaust mæla með henni með ofangreindum breytingum.

Hér má sjá Strava trakkið: https://www.strava.com/activities/3425408011

Eftir nesti og teygjur ókum við að Eldvörpum til þess að skoða aðkomuna þangað og síðustu kílómetrana að Bláalóninu sem er mjög skemmtileg stikuð leið í grónu hrauni og virðist mjög auðveld yfirferðar.


Niðurstaða könnunarleiðangursins er að Reykjanesið er alveg ótrúleg náttúruperla sem maður hefur alls ekki skoðað til fulls. Undirlagið er mjög misjafnt. Sléttir hraunflekar, sandur, möl, úfið hraun og grjót. Einnig er mjög mikið af beittum hraunnibbum og lausu grjóti. Það er því mikilvægt að vera á varðbergi og hafa sjúkrabúnað með sér ef einhver dettur. Eins vorum við ánægðir með að hafa skellt á okkur "geitunum" sem hindraði sandinn í að fara í skóna að mestu leiti. Mikið hrikalega verður þetta spennandi!

51 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page