Nú eru plön sumarsins farin að skýrast. Ég er búinn að skipuleggja legg 7 og 8 og kominn með drög að 9 og 10.
Langleiðin #7 verður um 30km frá Úlfljótsvatni og á Laugarvatn. Ég fór könnunarferð um Lyngdalsheiðina í apríl. Það reyndist talsvert drulluævintýri en þar náði ég að staðfesta ágæta leið og útloka tvær illfærar. Leiðin er ágæt, mikið utanvega og seinfarin að hluta. Hún er aftur á móti skemmtileg og að hluta um svæði sem ég hef aldrei farið áður. Þá er kjörið að enda ferðina í Fontana á Laugarvatni til að hvíla sig og slaka á eftir ferðina.
Langleiðin #8 verður frá Laugarvatni á Geysi. Þessi leið er að hluta til skemmtileg en að hluta til eins sú leiðinlegasta. Þetta svæði þekki ég frekar vel og hef hlaupið um að miklum hluta. Hér skiptast á skemmtilegir stígar eftir Kóngsveginum um þéttbýl sumarhúsasvæði en á móti er þetta eini leggurinn þar sem ekki verður hjá því komist að hlaupa að einhverjum hluta með fram þjóðveginum sem ég hef reynt að forðast fram í lengstu lög. Leiðin er líka með auðveldara móti varðandi hækkun en eitthvað braml gegnum birkiskóga og drullustíga gæti verið innifalið.
Langleiðin #9 og #10 eru frá Geysi, yfir ónefnda heiði milli Hvítá og Þórsá þar sem finna má línuvegi, Laxárgljúfor og Háafoss, og upp á fyrsta hluta Sprengisands við Sultartangalón. Fyrri leggur er frá Geysi að Helgaskála og sá síðari upp á gömlu Sprengisandsleiðina. Hér byrja málin að flækjast. Á fyrri leggnum eru tveir valkostir, það er að fara línuveginn í örlítilli norðansveiflu. Sú leið er öll eftir malarbornum og þokkalegum línuvegi sem er vel jeppafær. Hinn valkosturinn er að fara af veginum við Tungufellsdal og stytta sér leið eftir fjárgötum, afréttarslóðum og að hluta vegleysu áður en línuvegurinn er fundinn aftur skammt frá Helgaskála. Sú leið er um 5km styttri en inniheldur að minnsta kosti 4km af vegleysu yfir hóla og hæðir sem er mögulega votlendi. Ef einhver þekkir þetta svæði væru ráðleggingar vel þegnar. Síðari leggurinn er nokkuð augljós eftir línuveginum, stutt viðkoma við Háafoss og síðan rakleiðis yfir Þjórsá.
Ég hef ákveðið að fylgja gömlu Sprengisandsleiðinni eftir þetta upp að Þúfuvötnum, langleiðina í Nýjadal. Þá er ég spenntur fyrir því að skipuleggja alveg sérstaka 2 daga hlaupaferð frá Nýjadal um Vonarskarð. Einstaka gönguleið milli jökla. Það verður að koma í ljós hvort það næst í ár en haust 2022 er líklegra. Eitt er víst að það eru spennandi tímar fram undan þótt skipulagið taki nú að þyngjast.
Comentarios