top of page
Search
Writer's pictureÓskar Þór Þráinsson

Langleiðin 2023 - Yfir vatnaskilin

Langleiðin 2023 fór vel af stað í upphafi árs 2023. Við settum saman plan um að fara 3-4 leggi á fjórum til fimm dögum. Tveir bílar ásamt tveimur viðbótar hlaupurum skráðu sig til leiks og þrjár helgar voru teknar frá sem plan A, B og C. Planið hélt alveg fram á vor þegar í ljós kom að annar bíllinn hafði verið seldur, bílstjórinn á vinnuvakt, hinn bíllinn kominn á fullt í ferðaþjónustu og viðbótarhlauparar ekki í standi. Ég prófaði að hafa samband við ferðaþjónustufólk og trússara en komst þá að því að sumarið var uppselt í ferðaþjónustunni nema fyrir þyngd í gulli. Nú voru góð ráð dýr en sem betur ferð náðist að krukka upp nýtt metnaðarfullt plan í miðjum júlí. Það voru heiðurshjónin og útivistamógúlarnir Guðrún Harpa Bjarnadóttir og Erlendur Pálsson sem tóku að sér að sjá um að trússa okkur, Óskar og Tomma, þrjá daga upp á Sprengisand og sækja eða skuttla okkur eftir þörfum. Þar sem ekki var mögulegt að lenga ferðina fram í vinnuvikuna var planið að fara þrjá leggi á þremur dögum, samtals 79km ef allt gengi eftir helgina 28.-31.júní.

Ferðavikan byrjaði ekki vel þegar Óskar beitti sér eitthvað rangt við heimilisstörf á mánudegi svo hann gat ekki stigið í fótinn. Eins hafði Tommi áhyggjur af því að meiðsl gætu takmarkað fjölda leggja. Allt kapp var sett á teygjur, rólegheit og nudd og fingur krossaðir. Sem betur fer voru áhyggjurnar ástæðulausar og lögðum við af stað um hádegi 28.jún áleiðis upp á Hálendi með bílinn fullan af hlaupabúnaði, vistum og björtum vonum.


Dagur 1: Versalir - Kistualda

Við komum rétt um kl. 14 að Versölum Í stað þess að fara áfram eftir Sprengisandsleið sem venjulega er farin upp í Nýjadal fórum við eftir veituvegum Kvíslaveitu og upp fyrir Kvísavatn. Vegurinn var gerður í tengslum við virkjanaframkvæmdir á svæðinu. Þessi malarvegur varð fyrir valinu þar sem ekkert vað er á leiðinni og hann er þokkalega sléttur miðað við Sprengisandsleið. Þá höfum við reynt að velja vegi sem eru ekki endilega aðalvegir. Elli og Garpa kvöttu okkur með virktum og fóru af stað upp í Nýjadal þar sem við ætluðum að gista yfir helgina. Við skokkuðum af stað eftir malarslóðanum til norðurs í fínum hita, um 12° sem telst í heitara lagi á svæðinu en nokkrum mótvindi. Við sáum mjög fljótlega að ekki yrði mikil tilbreyting í landslaginu á þessum legg. Framundan var víðátta, fjalla- og jöklasýn í allar áttir og endalaus vegur út í framtíðina. Mótvindurinn var hressilegur og ekki var hægt að spjalla fyrir vindgnauði í eyrum. Það var þó bót í máli að vindurinn var að mestu hlýr. Þar sem þetta var fyrsti leggurinn af þremur á þremur dögum og vindurinn þreytandi til viðbótar tókum við þá ákvörðun að fara okkur sérstaklega hægt, skokka rólega jafnsléttur og niður brekkur en labba alla bratta upp. Fljótlega séum við í Kvíslavatn sem er gríðarstórt uppistöðulón, 20 ferkílómetrar að jafnaði segir Google. Það var augljóst að mjög lítið var í lóninu þar sem víða voru strendur í stað árbakka við veginn. Eftir því sem tímanum leið, rokið hélt áfram ætlaði þetta blessaða vatn engan endi að taka. Lítið að frétta nema ein stífla með smávegis gróðri og einstaka skilti. Fyrstu rúmu þrír og hálfu tímarnir voru því nokkuð strembnir andlega með mótvind í fangið, vindgnauð í eyrum, jökul á vinstri hönd og vatn á hægri. Í heildina var þessi leið ágætlega flöt þar sem brekkur voru almennt ekki brattar eða langar bæði upp eða niður þótt þær væru tíðar. Eftir allan þennan tíma á þar sem umhverfið breytist lítið gladdi það að komast að enda vatnsins, finna brú og byrja að hækka okkur upp í áttina að endamarki dagsins. Síðustu 7 kílómetrarnir voru talsvert upp í móti en þá fór að skýrast fjallasýn til austurs og hreyfing tilbreyting kom í landslagið. Þegar um 5km voru eftir kom Elli á Krúsernum að athuga stöðuna á okkur sem var býsna góð eftir atvikum.

Við kláruðum hækkun dagsins og enduðum daginn uppi á útsýnishól, Kistuöldu (767) þar sem við gátum virt fyrir okkur bæði veginn að baki og næstu dagleið. Uppi á Kistöldu er stærðarinnar kross með merkingunni "Ferðafrelsi 872-2010". Það voru líklega fúlir jeppakallar sem reystu hann í mótmælaskili þegar ráðherra ákvað að banna akandi umferð um Vonarskarð, skarðið sem við stefndum á að fara tveimur dögum síðar.

Dagurinn endaði í 33km á 4 klst og 37mín með um 1.340 í uppsafnaðri hækkun. Ég hugsa að vindurinn hafi haft af okkur talsverðan tíma, en við vorum ekkert að telja það eftir okkur, komnir heilir á húfi í mark.

Við vorum sáttir eftir daginn, keyrðum með Ella upp í Nýjadal þar sem við komum okkur fyrir í skálanum, nærðum okkur og hlóðum batteríin fyrir næsta legg. Gunna Geirs, vinkona Tomma kom til liðs við okkur á föstudeginum með það í huga að hlaupa með okkur næstu leggi.



Dagur 2: Kistualda - Nýjdalur

Eftir góðan nætursvefn lögðum við af stað um 10 frá Nýjadal og keyrðum til baka að Kistuöldu. Við höfðum nú fengið liðsafla, Gunnu, sem ætlaði að hlaupa með okkur þennan legg. Nú bar svo við að þótt hitinn væri svipaður var vindurinn snarlega minni. Við byrjuðum í vindjökkum en fórum fljótlega úr þeim þegar okkur hitnaði af hlaupunum. Við höfðum séð

að meðfram veginum voru stöku stikur sem virtust vera einhvers konar slóði. Við gerðum tilraun til að fylgja einum þeirra. Þetta eru sennilegast reiðslóðar sem ætlað er að stytta sveigjur og beygjur á veginum. Þessir slóðar eru hins vegar lítið farnir og lítið troðnir. Þeir reyndust því allt of mjúkir til að geta hlaupið greiðlega í og við færðum okkur aftur á malarveginn. Það var á einum stað þar sem við brugðum út af honum inn á reiðslóða. Eins fórum við á einum stað út af veginum til að skoða gróðurvin í gömlum árfarvegi.

Ekki er hægt að segja að þessi hlaupaleið hafi heldur boðið upp á mikla tilbreytingu. Það voru heldur fleiri brekkur upp og niður, nokkur umferð af bílum en eini munurinn frá því daginn á undan var að nú voru fjöllin framundan umhverfis Torfajökul að færast nær með hverjum klukkutímanum sem leið á sama tíma og vindur gekk niður og hiti upp. Við hlupum inn landamerkin í Vatnajökulsþjóðgarð og yfir þurra sanda þar sem oft er að finna læki en voru nú skraufþurrir sandar. Stuttu fyrir Nýjadal komum við að Fjórðungskvísl, bergvatnsá sem er oftast mest krefjandi farartálminn upp í Nýjadal. Að þessu sinni var svo lítið í henni að við gátum sveigt fram hjá pollum og tipplað yfir ána þurrum fótum. Við skokkuðum niður í Nýjadal að skálanum glöð og sæl eftir rólegan dag, eins og daginn á undan og kláruðum 25km á 3klst og 41mín sæl og glöð. Við vorum ákaflega glaðir með það að enn héldu fætur og aðrir líkamspartar þannig að ekkert yrði því til fyrirstöðu að fara í þriðja legg ferðarinnar daginn eftir. Við tók annað kvöld af skálalífi, grilli, spilum og spjalli eins og best er á kosið í svona ferðum.


Dagur 3: Nýidalur um Vonarskarð í Gjóstu

Sunnudagsmorgun brosti sínu breiðasta og hálendið bauð upp á sitt allra besta veður. Landvörðurinn sagði að flaggstöngin væri biluðu því fáninn blakti ekki heldur lafði beint niður, nokkuð sem gerist nær aldrei þarna. Það kom til dæmis fram í gestabókinni að fimm dögum áður hafði hópur ætlað að fara Vonarskarð en varð frá að hverfa vegna roks. Við lögðum hins vegar af stað í logni og sól með spenning í maga yfir leið dagsins yfir Vonarskarð.

Vonarskarð er merkilegur staður. Þetta er eitt afskekktasta svæði landsins sem liggur milli Tungnafellsjökuls og Vatnajökuls, er eingöngu fært í dag á tveimur jafnfljótum og inniheldur bæði gróður, hverasvæði og vatnaskilin milli suður- og norðurlands (https://www.vatnajokulsthjodgardur.is/svaedi/nyidalur/vonarskard-stadur)

Hlaupa þarf stutta leið til baka eftir Sprengisandsleið áður en beygt er út af veginum inn á stikaða gönguleið. Leiðin liggur til að byrja með fram hjá flugvelli í Nýjadal, þar sem lognið ríkti líka þennan dag, og inn grösugan dal áður en leggja þarf á brattann upp Mjóháls. Það var magnað að sjá um leið og komið var inn í dalinn hvað náttúran byrjaði að breytast. Grös, mosar, blóm og annar smágróður var að finna í hverju gili og hrygg. Þegar komið er langt upp á Mjóháls sést niður á grösug engi Nýjadals og rauðir, brúnir og grænir litir fjallanna í kring takast á við svörtu sandana að baki. Eftir rúma 7km náðum við hæsta punkti Langleiðarinnar í heild, um 1.138m á hæð og "toppuðum" þannig Langleiðina. Við tók nokkur klifur frá Mjóahálsi þar sem við hittum fyrir eina snjóskalf ferðarinnar og upp í skarðið við Eggju. Þar opnast fjallasýnt til Vatnajökuls og Vonarskarðið blasir við í öllum sínum stórfengleika. Skyndilega spruttu upp rauðar leirhlíðar, iðjagrænar mosaþembur, svartir tindar og gular hlíðar, eins og maður væri skyndilega kominn í allt annan heim.


Eftir tilbreytileika leggjanna á undan vorum við skyndilega

komin í einhvern æfintýraheim. Regnbogalituð hverasvæði, ár og leirmóar, fjöllitaðir stapar og jökulbláminn, svörtu sandanir og samferðarfélagarnir blönduðust í algjöru undri. Við fundum hverasvæðið og örlítið lengra á leiðinni fundum við heitan læg þar sem við skelltum okkur í fótabað. Við hefðum líklega getað eytt öllum deginum þarna því þetta magnað landslag gerir leiðina nær óhlaupafæra sökum náttúrufegurðar. Við vissum að á hinum enda dagleiðarinnar yrði beðið eftir okkur og héldum því áfram niður eftir í átt að vatnaskilunum. Marglita og fjölbreytta náttúran hvarf innan nokkurra kílómetra jafn skjótt og hún hafði birst og við töku svartir sandflákar, sandöldur og nokkur vöð sem voru þó frekar auðveld yfirferðar. Á þriðja vaði reiknaðist okkur til að um væri að ræða vatnaskil í ferðinni. Við fórum yfir Rauðá sem rennur að lokum til norðurs. Í fjarska sáum við háan hrygg og fólk bera við himin. Þar voru trússararnir okkar í för. Við kláruðum að lokum síðustu brekkuna að bílastæðinu við Gjóstu þar sem ferð helgarinnar endaði í faðmlögum með trússurunum. Dagleiðin var 20.83 km dagur á 4:30klst en 3:20 moving time. Ég hefði alls ekki vilja fara hraðar yfir. Þetta er sannarlega magnaðisti leggur Langleiðarinnar og ætti að fara til þess að njóta.

Ferðahelgina endaði sem 79km ferð um þrjá leggi. Við tók löng ferð heim en einstaklega vel heppnuð í alla staði.





6 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page