Í undirbúningi fyrir Langleiðarferð 2024 voru ýmsar áskoranir og vandamál. Þessi hluti leiðarinnar er sá allra erfiðasti þegar kemur að skipulagi bæði hlaupleiða, gistivalkosta og aksturs bílstjóra. Ljóst var að fara þyrfti Gæsavatnaleið en fyrirspurnir um gistingu í Gæsavatnaskála snemma árs 2023 gáfu ekki góð fyrirheit um að hann yrði laus nema til bókunar fyrir skálafylli af fólki. Fyrstu plön voru því að leggja í langferð helgina eftir verslunarmannahelgi, hlaupa þrjá leggi og skipta leiðinni frá Gjóstu, um Gæsavatnaskála yfir Gæsavatnaleið upp á Urðarháls og taka kafla frá Urðarhálsi niður að Holuhrauni með því að keyra á milli og gista í Nýjadal í tjaldi á Gæsavatnaleið og við Öskju.
Áhugasamir bílstjórar fengust í þetta verkefni, Benedikt Þorgilsson og Ragnheiður Silja Kristjánsdóttir, skátar og ferðaþyrstir tjaldvagnseigendur. Þegar sest var yfir plönin um mitt sumar kom í ljós að upphafleg hugmynd yrði ógjörningur í framkvæmd þegar kemur að eldsneytisþörf og ferðakostnaði. Þá voru góð ráð dýr og haft var aftur samband við skálaverði í Gæsavatnaskála. Helgin var enn þá bókuð en okkur bauðst tvær nætur í vikunni á undan. Nú voru góð ráð dýr. Tommi gat ekki losnað úr vinnu þessa daga en jeppafólk ákveðið að þiggja boðið um skálann og fara Gæsavatnaleið. Sú erfiða ákvörðun var tekin að breyta plönum, stytta ferðina í tvær dagleiðir og fara án Tomma í þetta sinn. (Planið er að fara aftur saman með Toppförum).
Laust fyrir brottför bættist Þorgils, pabbi Benna með í för og Sigurður Viktor Úlfarsson skáti ákvað að slást í förina til að láta reyna á getu upphækkaða VW California Beach rúgbrauðsins síns. Við vorum því 5 sem lögðum af stað á 3 bílum að morgni 7. ágúst 2024 áleiðis upp á hæsta hálendi Íslands. Ferðin gekk nokkuð áfallalaust fyrir sig. Við skildum tvo bíla eftir við Gjallanda og fórum á einum bíl upp í Gjóstu til að skutlast með hlaupara, en Ragnheiður Silja ákvað að hlaupa með hluta leiðarinnar. Aðrir óku svo til baka í Gæsavatnaskála. Við komum um kl. 21.30 upp í Gjóstu og horfðum á rósrauðan jökulinn og Vonarskarð í kvöldbirtu sem var sannarlega mögnuð sjón.
Langleiðin : Gjósta - Gæsavötn
Við Ragnheiður skokkuðum af stað niður í móti inn í sólsetrið og rúlluðu rólega eftir góðum jeppaslóða með tveimur litlum lækjum. Ferðin gekk vel og litir magnaðir í sólsetrinu. Víðáttan er mikil og útsýni niður á norðurland en ekkert sérstaklega markvert í nágrenni vegslóðans. Við komum að Gjallanda og brúnni laust fyrir miðnætti þegar birtan var að hverfa eftir um 17 km. Þar fór Ragnheiður Silja í bílinn sem skilinn hafði verið eftir fyrir hana og keyrði upp í skála til samferðamanna en ég hélt áfram síðustu kílómetra. Ég fór yfir
handriðalausu brúna í ljósaskiptunum og fylgist með rauðu stöðuljósum jeppans hverfa út í myrkrið. Síðasta birtan hvarf og myrkrið tók yfir. Ég setti upp höfuðljós til að sjá veginn. Eftir nokkra kílómetra upp í móti kom þokubakki á hraðferð og tók þá litlu sýn sem ég hafði haft. Þokan varð svo svört að ég sá ekkert nema einn til tvo metra og ekki alltaf næstu stiku. Rakinn í loftinu lýstist upp þannig að ég var eins og í pínulítilli ljóskúlu en hljóp samt nánast blindandi alveg án þess að sjá neitt í kringum mig. Ég upplifði efasemdir um hvort ég væri að fara upp eða niður en ég var með trakkið og fylgdi hjólförunum þar sem þau sáust. Þökk sé óbilandi trú og trakki kom ég að lokum auga á daufan bjarma í fjarska sem reyndist vera Gæsavatnaskáli. Ég óð yfir síðasta lækinn og komst heill á húfi í skálann. Þar biðu mín grillaðar pylsur og kaldar veigar rétt um kl.1. Heildarvegalengd 26.35km og ferðatími um þrír og hálfur tími á skokki.
Gæsavötn og Gæsavatnaskáli
Þegar við vöknuðum um morguninn var þokan að leysast upp í sólinni. Innan tíðar var orðið heiðskýrt og sólbjart með útsýni til allra átta. Fegurð Gæsavatna var stórfengleg. Ég byrjaði morguninn á smá göngu um svæðið sem einkennist af öfgum milli hraundranga og iða grænna mosaflata og þúfna sem hlykkjast í kringum lindauppsprettur og vötn. Smáfulglar flögruðu um og það glampaði á jökulinn í fjarska. Skálinn er alveg einstaklega notalegur og þægilegur að vera í og öll aðstaða til fyrirmyndar.
Langleiðin: Gæsavatnaskáli og yfir Urðarháls.
Gert var ráð að ég myndi hlaupa Gæsavatnaleið sem leið liggur að Urðarhálsi um 25km. Þar sem tveir bílar ætluðu að koma á eftir mér til að sækja mig var mér gefinn tveggja tíma forskot með þeirri hugmynd að þegar bílarnir næðu mér þyrftu þau ekki að bíða of lengi eftir mér á hinum endanum.
Ég lagði var af stað í glampandi sól og logni eftir Gæsavatnaleið. Leiðin er sú erfiðasta yfirferðar sem af er á Langleiðinni. Sandur, hraun, stórgrýti, kræklóttar hálfgerðar vegleysur, tvær ísjökulkaldar jökulkvíslar (enda renna þær nánast beint undan jöklinum þarna), brekkur, hálsar og allt sem manni dettur ekki í hug. Þetta er eiginlega alls engin leið. Meira óleið, troðningur eða einhverskonar óformuð hugmynd að vegi. Að því sögðu þá er Gæsavatnaleið hins vegar alveg ótrúlega full af endalausri fjölbreytni, útsýni yfir jökla, ruðninga, dyngjur, hraun og ógnvænlega náttúru sem á enga hliðstæðu. Stundum gat ég hlaupið eftir löngum sand og malarköflum en stundum þurfti ég að stikla yfir hraunhellur og nibbur eða feta mig áfram milli sprunga eða himnabjarga. Það merkilega er að ég fór líklega á köflum hraðar yfir en bílarnir.
Þegar ég kom eftir um þriggja tíma brölt upp á Urðarháls voru engir bílar í augsýn eins langt og augað eygði. Eftir að skoða mig um ákvað ég að best væri að sóa ekki dýrmætum tíma að bíða og ákvað að lengja þennan legg og hlaupa áfram niður af Urðarhálsinum hinum megin. Klukkutíma síðar var ég kominn í niður á sandana hinum megin þar sem Flæðurnar byrja og stoppaði á gatnamótum sem þar eru. Þá taldi ég mig sjá bílana vera að klöngrast niður Urðarhálsinn og hljóp til baka um kílómetra uns ég mætti þeim. Það kom í ljós að bílarnir voru um þrjá tíma með þessa sömu vegalengd og ég hafði hlaupið á um 3,5 klst. Eftir smá orkusöfnun og fataskipti lögðum við af stað til baka í aðra 3 klst. ökuferð á hraða snigilsins. Heildar ferðatími 4 klst. og 32 km.
Marteinsflæður og aðrar uppákomur
Við komumst til baka í skálann um kvöldmatarleitið og fögnuðum árangri dagsins. Ókrýndur meistari ferðarinnar var VW Californa Beach, bláa rúgbrauðið hans Sigga. Þessi undrabíll hannaður af þýskum verkfræðingum óð yfir hvað sem fyrir varð og stóð sig með stakri prýði á þessari mestu vegleysu landsins. Það voru nokkrir bílstjórar á ofurbílum og hjóla og göngufólk sem ráku upp stór augu þegar þessi bíll silaðist fram hjá eins og enginn væri morgundagurinn. Aldrei mun ég segja neitt slæmt um svona bíla nokkurn tímann aftur 😂
Á leiðinni heim stoppuðum við í heitri laug við Marteinsflæður. Þar hittum við bílstjóra fjórhjóls sem við höfðum hitt daginn áður sem hafði eydd deginum í að moka uppsafnaðri drullu og sandi upp úr þessari stórmerkilegu heitu laug. Það var því nóg pláss fyrir okkur öll að sitja og njóta þess að baða okkur úr þægilegu jarðhitavatni lengst uppi á öræfum. Þetta er líklegast næst besta náttúrulaug sem ég hef setið í.
Leiðin heim gekk bærilega alveg þangað til í Nýjadal kom þegar það sprakk á fólksvagninum. Sem betur fer var tappaviðgerðarsett með í för og dekkið lagað þannig að hægt var að halda ferðinni áfram. Dæla þurfti reglulega í og annað dekk reyndist vera sprungið þegar komið var neðan af hádeginu. Það þurfti að stoppa reglulega á leiðinni í bæinn til að bæta á loft eða stinga tappa í göt en það hafðist þó að lokum. VW fær ný dekk eftir þessa svalið för.
Þessi ferð var mögnuð fyrir margar sakir. Það er líka vert að minnast á Gæsavatnaleið opnaði viku áður en við fórum en fjórum dögum seinna kafsnjóaði á Gæsavatnaleið þannig að hægt var að búa til snjókalla við Gæsavatnaskála.
Ég er feginn að vera búinn með erfiðasta kafla Langleiðarinnar. Næsta ár verða það Flæðurnar og Dreki við Öskju en þá norðan frá í lengri ferð. Spennandi 😎
留言