top of page
Search
Writer's pictureÓskar Þór Þráinsson

Heiðanna-ró: Helgaskáli að Sprengisandsleið


14.ágúst fórum við Tomas aftur óvænt af stað í 9unda Langlegginn frá Helgaskála að Sprengisandsleið. Plön höfðu breyst, helgin laus og aftur spáð rjómablíðu á suðurlandinu. Ekki tókst að útvega trúss í þetta skiptið þannig að við brunuðum að morgni með bíl upp Þjórsárdalinn og keyrðum svo til baka og upp í Helgaskála með annan bíl þar sem við enduðum síðast. Veðurspáin stóðst allar væntingar og var komin sól og >18° þegar við lögðum af stað en blessunarlega ekki sami lamandi hitinn og helgina áður. Við vissum líka að meira vatn var á þessum legg og því gátum við haft pokana léttari. Eina sem skyggði á daginn var að langleiðarflaggið góða varð eftir á stofuborðinu (Tomma til mikillar gleði) en það mun ekki gleymast næst! Leiðin lá áfram eftir línuvegi Sultartangalínu 3. Um fjórðungur leiðarinnar varu örlítið upp á móti yfir nokkra læki og vöð yfir Stóru-Laxá en lítið var í öllum ám þar sem engin rigning hefur verið á svæðinu undanfarna viku.


Eftir fyrstu 10km náðum við hápunkti heiðarinnar og sáum bæði í vestur yfir farinn veg og austur niður að Þjórsá þangað sem leiðin lá. Það var kærkomið að fá að hlaupa aftur niður á móti eftir síðasta legg sem var meira og minna upp á móti. Við hittum fyrir fólk á nær öllum tegundum ferðamáta: Buggybílstjórum, hestafólki, hjólreiðafólki, utanvegahlaupurum, göngufólki og jeppaköllum. Þessi hluti línuvegarins er heldur seinfarnari og mjög grófur á köflum uns komið er langleiðina að Fossá sem er stærsta hindrunin á þessari leið. Buggybílstjórarnir sem við hittum höfðu sagt okkur að mjög lítið væri í ánni og hún væri straumlítil núna en varað okkur við að hún væri ójöfn í botninn. Það stóð heima. Áin náði okkur ekki nema í kálfa en í botninum eru hraunhellur og steinar sem stikla þarf á, yfir og í kringum til að varast dýpri holur. Hún er auð-vöðuð en ég myndi ekki treysta mér að aka yfir hana nema í fylgd fleiri bíla með búnað. Aðeins lengra eftir veginum komum við að afleggjaranum við Háafoss þar sem við gerðum krók á leiðinni til að skoða. Hann er alltaf jafn magnaður að sjá og horfa yfir og algjörlega þess virði að taka þetta hliðarspor frá línuveginum.



Eftir Háafoss eltum við línuveginn alveg niður að þjóðveginum við Sultartangavirkjun þar sem malbikið tók við okkur síðustu 5km dagleiðarinnar. Brúin yfir Þjórsá er eina góða leiðin til þess að fara frá vestri til austurs á löngum kafla bæði til norðurs og suðurs og aðal ástæða þess að leiðarvalið þvert yfir landið fer hér um. Á miðri brúnni mættum við þremur frískum göngumönnum sem við heilsuðum og spurðum hvaðan þeir væru að koma. Frá Mjóafirði var svarið, en þarna hittum við akkúrat á félaga sem eru að fara Ísland endilangt, útsýnisleiðin, 1000km raðgöngu yfir Ísland frá austri til vesturs. Á sömu brú á sama tímapunkti ók Birna Maria líka fram á okkur fyrir tilviljun. Magnaðar þessar tilviljanir.

Við enduðum legginn á gatnamótunum þar sem þjóðvegur 32 (Þjórsárdalsvegur) endar og Sprengisandsleið byrjar (F26) þreyttir og sælir eftir enn annan bongó dásemdar dag um þetta stórfenglega land. Heilt yfir skemmtilegri leggur en sá síðasti þótt mónótónninn í línuvegum og landslagi sé nokkur á fyrri hluta leiðar. Heildarvegalengd var 33,09km og ferðatími 4:45 með stoppum.



33 views0 comments

Recent Posts

See All

Comentarios


bottom of page