Mánudaginn 29.júní fór ég með stærsta hópnum það sem af er, 8 manns, næsta legg Langleiðarinnar sem liggur frá Bláfjöllum, að fjallabaki gegnum svæði sem ég hef aldrei komið á og endar við Hellisheiðarvirkjun.
Veðurspáin lofaði þrusu góðu veðri um 16°c og sól... en reyndist síðan ekki alveg eiga við leiðina sem við fórum. Við lögðum af stað frá gönguskíðaskála Ullur í Bláfjöllum inn eftir og upp hjá Bláfjallahorni. Það var mjög gaman að sjá þetta svæði sem maður hefur oft þotið um á gönguskíðum svona bert og brúnt. Það var nú ekki eins rennislétt og á veturna en svo sem ekki torfarið. Þaðan lá leiðin að baki Bláfjallahorni. Þar mættum við manni með sex hunda sem voru aldeilis spenntir að finna hlaupafélaga. Þeir eltu okkur langan veg og eigandinn átti í basli með að kalla þá inn.
Það voru því tveir sem hlupu aðeins til baka til að afhenda þeim eigandanum. Leiðin lá frá Bláfjallahorni fram hjá Kerlingarhnúki sem var hæsti punkturinn og síðan niður Drögin að Fjallinu eina. Þessi hluti leiðarinn er frekar óáhugaverður slóði í hrauni og malar, moldarstígum og vorum við hálf partin óspennt fyrir þessum hluta leiðarinnar. Á grösugum sléttum við Fjallið eina vorum við komin niður á meira undirlendi og þá tók veðrið að batna og umhverfið að verða magnaðra. Eins og alltaf hittum við á göngufólk þarna út í víðáttunni. Aldrei friður.
Leiðin lá síðan meðfram og yfir hraunjaðarinn upp að flottum útsýnisstað við gatnamót þar sem við sáum vítt og breytt, meðal annars Eldborgirnar og hraunið sem við áttum eftir að fara um. Eftir skemmtilegt skokk komum við að Syðri-Eldborg, stærðarinnar gíg í miðju Lambafellshrauni. Við vorum þrír sem gátum ekki hamið okkur í að klifra upp og virða fyrir okkur umhverfið Þaðan var gott útsýni og magnað að sjá hvílíkar sprengingar hafa verið í þessum eldsumbrotum. Stelpurnar höfðu haldið áfram og hleyptum við því okkur á gott skeið til að ná þeim sem gladdi okkur mikið. Það er svo gaman að láta gamninn geysa gegnum hraun og mosa og finna bæði adrealínið flæða og umhverfið fanga hugann og ímyndunaraflið.
Þessi leið frá Syðri-Eldborg að Nyrðri-Eldborg og síðan að Lamafellsskarði er mjög mögnuð gegnum hraun en torfarin á köflum, sérstaklega þegar komið er í Háabruna, eitt úfnasta hraun sem ég hef séð milli Nyrðri-Eldborg og Lambafellsskarðs. Þar var varla nema göngufæri ef maður ætlaði ekki að detta og rista sig á hol á beittum hraunnibbum. Í Lambafellsskarði sést gönguleiðin vel og þar sáum við líka til Hellisheiðarvirkjunar. Síðust 5km voru á malarvegum og stígum uns við lukum leggnum við anddyri Hellisheiðarvirkjunar með 19,8km að baki. Þar komu félagar mínir mér á óvart og veiddu upp freiðivín til að skála fyrir fertugsafmælinu mínu sem var 2 dögum áður. Lífið gerist ekki betra en þetta!
Þetta var mjög fjölbreytt leið sem kom á óvart, sérstaklega í við Eldborgirnar. Það má segja að óáhugverð byrjunin á leiðinni hafi algjörlega horfið í samanburði við ægilega náttúruna í hrauninu seinnipartinn. Ég mæli sannarlega með því að kíkja í Lambafellshraun og á Eldborgirnar. Vel þess virði að gera sér ferð þangað. Ég hef nú ferðast 110km af Langleiðinni sem gæti verið á bilinu 13-16% leiðarinnar. Langleiðin er nú komin í sumarfrí fram á haust þegar stefnan verður sett á að fara milli Hellisheiðarvirkjunar og Úlfljótsvatns gegnum Hengilssvæðið og Reykjadalinn.
Comments