Leiðarlýsing
Vegalengd
31,1 km
Hækkun/lækkun
396/488 m
Undirlag
Allt mögulegt en aðallega ómögulegt undirlag. Jeppaslóðar, möl, sandur, mold, leir, hraun, snjór, stórgrýti, klappir.
Leiðin
Þessi hluti Langleiðarinnar fer um Gæsavatnaleið, þann veg sem er hvað lengst frá byggð og er líklega versti vegur eða vegleysa alndsins. Farið er frá Gæsavötnum, yfir Dyngjaháls, fram hjá Kistufelli yfir Urðarháls og niður að Flæðunum. Leiðin er einungis fær góðum fjallabílum og vönum bílstjórum.
Trakk
Nánari lýsing
Lagt er af stað frá Gæsavatnaskála eftir þokkalegum sand/malarvegi. Litlir lækir eru við hraunbreiðurnar sem auðvelt er að stika yfir. Fljótlega er komi að Dyngjuhálsi sem er dálítið á brattann. Þaðan er gott útsýni yfir Gæsavötn ef litið er til baka. Uppi á Dyngjuhálsi er hæsti punktur leggsins, næst hæsti punktur Langleiðarinnar og kallast Vörðukambur. Þar er frábært útsýni yfir Norðurland, Trölladyngju og falleg jöklasýn. Ferðalangar hafa reist fjölmargar vörður þar sem gaman er að stoppa og horfa í kringum sig. Vegurinn þræðir sig gegnum hraunbreiður og hraunborgir uns hann tekur að versna. Leiðin fer nú að liggja niður á við uns komið er nálægt jökuljaðrinum að fyrstu jökulánni. Hún breiðir úr sér og getur bæði verið vatnsmikil og breið ef það er bjart og hlýtt en hún getur líka verið skraufþurr. Við taka hraunbreiður sem eru erfiðar yfirferðar. Gæsavatnaleið getur seint talist mikill vegur, en hér er farið yfir hellubreiðu eftir stikum þótt enginn eiginlegur vegur sjáist uns komið er að annarri jökulkvísl. Þeim árfarvegi er fylgt um dágóðan tíma eftir einskonar leirum þar sem auðvelt er að spretta í spori en gæta þarf að sér að villast ekki þar sem leiðin er ógreinanleg og fylgja þarf stikum. Næst taka við sandauðnir og síðan aftur hraundrangar og ófærur. Þegar nálgast er Kistufell skánar vegur um tíma en Kistufell er neyðarskýli og hálfgerður skáli eins langt frá mannabyggðum og hugsast getur. Milli Kistufells og Urðarháls er mjög seinfarinn kafli upp og niður brekkur um stórgrýti og urðir en tilkomumikill jöklasýn. Þegar búið er að klöngrast eftir vegleysunni upp á Urðarháls er vert að skoða gríðarstóran Sigketil sem þar er. Niður af Urðarhálsinum tekur ekkert betra við, jafnvel verra stórgríti og urðir sem þræðast milli ófæra. Að lokum er komið niður á rennisléttan sand svo lang sem augað eygir uns náð er gatnamótum nokkrum kílómetrum síðar þar sem leiðin endar.
Til athugunar
Gæsavantaleið er sá torfærasti vegur sem ég hef farið, en mjög fjölbreyttur. Hann er jafnvel seinfærari fólki en bílum og getur verið mjög ólíkur yfirferðar eftir árstíma, hita og aðstæðum. Það borgar sig að vera með gott ferðafólk með sér og nægan útbúnað.