top of page
langleidin2023-2.png

Langleiðin 14: Nýidalur - Vonarskarð - Gjósta 

Nýidalur um náttúruundrið Vonarskarð yfir vatnaskilin og í Gjóstu á Norðurlandi

Leiðarlýsing

Vegalengd

21km

Hækkun/lækkun

824/536,5 m

Undirlag

Fjölbreytt stíga,slóða og stikaðra leiða: möl, sandur, mold, gras, leir, mosi, steinar, snjór, stórgrýti

Leiðin

Þessi hluti Langleiðarinnar fylgir stikaðri leið frá Nýjalda, gegnum Vonarskarð, eitt afskekktasta og magnaðasta landsvæði Íslands upp fjöll, gegnum gil og skorninga, um gróðurvin, háhitasvæði og jökuleyðimerkur milli jökla.

Trakk

Nánari lýsing

Lagt er af stað frá Nýjadal til baka eftir veginum uns stikur vísa vegin inn að flugvellinum og inn eftir í áttina að Mjóhálsi. Landslagið breytist fljótt úr sandi og möl yfir í þéttan lággróður sem skokkað er yfir og eftir. Ekki er allstaðar skýr slóði en stikur eru vel greinanlegar og auðvelt að fylgja. Fljótlega liggur leiðin að og upp Mjóháls og er þá talsvert á fótinn eftir slóða en þar er mesta hækkun dagsins í einum rykk. Þegar upp er komið tekur við mögnuð fjallasýn til allra átta og alveg niður suðurlandið.  Á ca 10.4km á malarhól er hápunkti Langleiðarinnar náð þar sem leiðin nær um 1150m hæð. Það er hæsti punktur lands sem leiðin liggur um. Haldið er áfram eftir gili eftir skriðum og skorningum og stöku snjósköflum uns komið er upp í fjallaskarð við Eggju. Þar opnast Vonarskarðið og Snapadalur með ólýsanlegri náttúrfegurð. Landslagið breytist í litskrúðug fjöll, grænan gróður, hverasvæði með jöklasýn og litadýrð hvert sem litið er. Eftir að fikra sig niður skarðið gegnum líparítsstíga og mosaþembur er komið að jarðhitasvæði þar sem skoða má hveri og heita læki. Eftir nokkra leið til viðbótar er komið að heitum læk þar sem hægt er að stinga tám og með lagni fótum í heitt vatn og virða fyrir sér stórfenglega náttúru hálendisins. Þegar haldið er áfram hverfur græna náttúran jafn skjótt og hún kom og við taka svartir eyðimerkursandar með vötnum og lækjum. Farið er yfir nokkrar kvíslar sem renna til suðurs og verða að endingu að Þjórsá uns komið er upp á malarhól á ca 16km. Þar liggja vatnskilin sem aðskilja suðurland og norðurland og eru bókstaflega vatnaskil Langleiðarinnar. Næstu tvær ár sem farið er yfir renna til norðurs og allar hér eftir. Þessi síðasti hluti er nær sléttur eða niður í mót uns komið er að síðasta kílómeter þar sem klífa þarf frekar bratta hæð upp frá sandsléttunum upp að endamarki leiðarinnar, bílastæðinu við Gjóstu. 

Til athugunar

Leiðin um Vonarskarð er mögnuð að öllu leiti. Hún getur hins vegar verið mjög breytileg og allra veðra von. Það getur verið mikill snjór, miklir vatnavextir og hávaðarok en líka sólarlandahiti, allt eftir því hvernig ferðalangar hitta á aðstæður. Í gestabók kom til dæmis fram að ófært hefði verið vegna veðurs í heila viku fyrir þessa ferð. Leiðin er merkilega hlaupafær á köflum en næstum ófært að hlaupa vegna náttúrufegurðar. Þess vegna er mikilvægt að gefa sér góðan tíma til að stoppa og njóta og ekki fara þennan kafla á hraðferð. Mögulegt er að lengja þennan kafla og halda áfram annað hvort um 5km niður að Hníflum eða 16km niður að Gjallanda.

Myndasöfn

Ferðasögur

20210814_151644.jpg
bottom of page